Upplýsingar fyrir sýnendur

Að ýmsu er að huga fyrir þátttakendur og sýnendur á Vísindavöku Rannís, allt frá því að sækja um að vera með, bóka sýningarbás og hugsa um hvernig hann á að líta út, útvega aðföng og kynningarefni og loks þarf að tryggja þátttöku frábærs vísindafólks og huga að því hvernig best er að skipuleggja lifandi og gagnvirka vísindamiðlun. Hér má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar fyrir sýnendur Vísindavöku. Ef einhverjar spurningar vakna, má hafa samband með því að senda senda tölvupóst á  visindavaka@rannis.is.

marglitir boltar fljúga upp úr tunnu í tilraun á VísindavökuVísindavaka 2023 verður haldin laugardaginn 30. september nk. í Laugardalshöllinni í Reykjavík. Rannís hefur umsjón með Vísindavöku á Íslandi, en verkefnið er m.a. styrkt af Horizon Europe rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB. Í undirbúningi vökunnar er stofnunum, háskólum og fyrirtækjum boðið að senda inn hugmynd sem gæti verið hluti af hátíðarhöldunum og að leggja til fræðimenn og rannsóknir eða verkefni sem áhugavert gæti verið að kynna fyrir almenningi. Skráning fer fram í júní-ágúst. Vinsamlegast athugið að Rannís áskilur sér rétt til að velja eða hafna þátttakendum og stýra uppröðun eftir aðstöðu, en ávallt er leitast við að koma til móts við óskir og þarfir sýnenda varðandi stærð sýningarsvæðis og þátttöku í lifandi vísindamiðlun. 

Annars vegar er boðið upp á lifandi og skemmtilegar kynningar á sýningarbásum með þátttöku gesta og hins vegar beina vísindamiðlun og eru þátttakendur hvattir til að nota aðstöðuna til að koma rannsóknum sínum á framfæri við almenning á áhugaverðan hátt. Vísindavakan snýr nú aftur eftir nokkurt hlé og er von okkar að hún veki áhuga og athygli almennings jafnt sem fjölmiðla. Hér má finna nokkrar vefsíður með upplýsingum og leiðbeiningum um vísindamiðlun.

Vísindavaka er fyrst og fremst ætluð til að kynna rannsóknir og nýsköpun á lifandi hátt en ekki að vera almenn kynning á skólum, stofnunum eða fyrirtækjum. Ekkert gjald er tekið fyrir þátttöku eða sýningarpláss á Vísindavöku.

Vefsíða og samfélagsmiðlar. Vísindavakan verður sem fyrr kynnt á öflugan hátt í helstu miðlum, bæði hefðbundnum og nýjum og verður m.a. kynnt í gegnum öfluga samfélagsmiðlaherferð. Fyrir utan vefsíðuna er Vísindavakan á Facebook, Instagram og Twitter. Hvetjum ykkur til að deila viðburðinum, fréttum og tengja, tengja, tengja. 

Sýningarkerfi og aðföng.  Sýningakerfi sér um að setja upp básana sem standa sýnendum til boða án endurgjalds. Hægt er að fá sýningarbás merktan nafni stofnunar, fyrirtækis eða háskóla. Í boði eru tilbúnir básar eða pláss fyrir eigin kynningarbása allt frá 2 fm. til 8 fm. á þátttakanda. Kynningarborð, 1 x 0,5 m að stærð fylgir með básum. Hægt er að leigja aukaborð af ýmsu tagi, stóla, bæklingastanda eða annað slíkt á kostnað sýnenda. Sjá nánar um aðföng á www.syning.is. Aðgangur er að rafmagni og þráðlausu neti. Tilboða hefur verið leitað til leigu á tæknibúnaði, svo sem stórum skjám hjá Sónik. Nauðsynlegt er að skipuleggjendur hjá Rannís viti sem fyrst af því ef óskað er sérstakra aðfanga, svo sem þriggja fasa rafmagns, útblæstri, aðgangs að vatni eða öðru.

Efni og titlar. Sýnendur þurfa að ákveða hvaða verkefni eða rannsóknir þeir hyggjast kynna á Vísindavöku og senda inn grípandi titla sem vekja forvitni og hægt er að nota í kynningarefni til að laða að forvitna og fróðleiksfúsa gesti á öllum aldri.

Vísindavakan er haldin samtímis í helstu borgum Evrópu til heiðurs evrópsku vísindafólki, undir heitinu European Researchers' Night. Markmiðið er að vekja áhuga almennings á vísindum og nýsköpun og kynna fólkið sem stendur að baki þeim. Þar fær fólk af öllum fræðasviðum tækifæri til að koma sér og rannsóknum sínum á framfæri á auðskiljanlegan og skemmtilegan hátt, enda á Vísindavakan að höfða til alls almennings, ekki síst til fjölskyldna, barna og ungmenna. 







Þetta vefsvæði byggir á Eplica