Heill heimur vísinda laugardaginn 30. september kl. 13:00-18:00 á Vísindavöku í Laugardalshöllinni. Á Vísindavöku, sannkallaðri uppskeruhátíð vísindanna í íslensku samfélagi, gefst gestum kostur á að hitta og ræða við okkar fremsta vísindafólk og kynnast mikilvægi rannsókna- og vísindastarfs í nútímasamfélagi. Aðgangur er ókeypis og margt spennandi að sjá og reyna á Vísindavöku!
Finnst þér gaman að fikta og prófa alls konar hluti og fræðast um hvernig hlutirnir virka? Viltu teikna á snertiskjá með stafrænum penna, heilsa upp á ísbjörn (uppstoppaðan), forrita með Skema, breyta koltvísýringi í grjót, lesa plöntur, kynna þér hjartahnoð, sjá lífið í sjónum með berum augum, hitta lifandi maura, fræðast um loftsteina og svarthol?
Þá skaltu koma á Vísindavökuna þar sem þú getur hitt okkar fremsta vísindafólk!
Vísindavakan hefst kl. 13:00 með afhendingu viðurkenningar Rannís fyrir vísindamiðlun. Sprengju-Kata mun svo sprengja Vísindavökuna í gang! Að setningu lokinni opnar sýningarsvæðið með lifandi vísindamiðlun þar sem gestir geta fundið eitthvað fróðlegt og skemmtilegt fyrir alla aldurshópa.
Einnig verður dagskrá í sal þar sem verður boðið upp á stutt og fræðandi erindi.
Heill heimur vísinda!
Á Vísindavöku Rannís stendur almenningi til boða sannkölluð vísindaveisla þar sem okkar fremsta vísindafólk sýnir og segir frá rannsóknum og nýsköpun á lifandi og gagnvirkan hátt.
Gestir fá að skoða og prófa ýmis tæki og tól sem notuð eru við rannsóknir, kynnast ýmsum afurðum og spjalla við vísindafólkið sjálft um hvernig er að starfa að vísindum, rannsóknum og nýsköpun. Lögð er áhersla á lifandi vísindamiðlun og virka þátttöku gesta og eru börn og ungmenni sérstaklega boðin velkomin á Vísindavöku.
Vísindavaka er haldin síðustu helgina í september í 340 borgum og bæjum í 26 löndum um alla Evrópu til heiðurs evrópsku vísindafólki. Vísindavaka er styrkt af Marie Sklodowska-Curie undir Horizon Europe rannsókna- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins.