Fjórir keppendur kepptu í lifandi vísindamiðlun á VísindaSlammi Rannís á dögunum og fengu áhorfendur að kjósa besta vísindamiðlarann.
Það var góð stemming á Stúdentakjallaranum þegar VísindaSlamm Rannís fór fram. Þetta var í annað sinn sem VísindaSlamm er haldið á Íslandi og hefur Rannís haft frumkvæði að því aðskipuleggja og halda viðburðinn í tengslum við Vísindavöku Rannís. Slammstjóri að þessu sinni var Sævar Helgi Bragason (Stjörnu-Sævar).
VísindaSlamm (e. ScienceSlam), sem á uppruna sinn í Þýsklandi, er vísindamiðlunarviðburður þar sem hver keppandi fær tíu mínútur til að segja frá rannsóknaverkefnum sínum á lifandi, skemmtilegan og auðskilinn hátt.
Aðalmarkmiðið með miðluninni er því ekki að segja frá niðurstöðum rannsókna hvers og eins heldur fremur að skýra frá eðli og áhrifum rannsóknanna á lifandi máta. Þá er þátttakendum frjálst að nýta leikmuni, búninga og annan búnað til að styðja við sína vísindamiðlun og víkja frá hefnbundnari miðlunarformum innan vísindasamfélagsins sem eru glærur með töflum og gröfum.
Að þessu sinni kepptu fjórir ungir vísindamiðlarar sín á milli um atkvæði áhorfenda. Bethany Louise Rogers, doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands, reið á vaðið og sagði gestum frá menningarlegu mikilvægi mjólkurvara á miðöldum á Íslandi. Næst var komið að Matthiasi Baldurssyni Harksen, doktorsnema í eðlisfræði við Háskóla Íslands, sem miðlaði eðlisfræðilegum lögmálum svarthola til áhorfenda. Anna Selbman, doktorsnemi í líffræði við Háskóla Íslands, var næst á svið en hún kafaði ofan í rannsóknir sínar á hvölum og hljóðum sem þeir gefa frá sér í samskiptum sín á milli. Loks var það Sigríður Kristjánsdóttir, jarðskjálftafræðingur á Veðurstofu Íslands, sem tók gesti í ferðarlag úr iðrum jarðar og út fyrir endimörk alheimsins.
Öll stóðu þau sig með stakri prýði og fengu dynjandi lófatak frá gestum. Áhorfendur fengu svo atkvæðaréttinn til að velja sigurvegara VísindaSlammsins og fékk Matthias Baldursson Harksen flest atkvæði áhorfenda.
Rannís óskar Matthiasi innilega til hamingju með sigur í VísindaSlamminu og þakkar öðrum keppendum kærlega fyrir þátttökuna.
Meðfylgjandi eru myndir sem Arnaldur Halldórsson tók á viðburðinum.