Guðrún Jónsdóttir Bachmann hlaut heiðursviðurkenningu Rannís fyrir ötult starf í þágu Vísindavöku

4.10.2023

Allt frá upphafi Vísindavöku á Íslandi hefur Guðrún verðið ómissandi drifkraftur í undirbúningi og framkvæmd Vísindavöku. Rannís vill með viðurkenningunni þakka Guðrúnu fyrir frábært samstarf og innblástur á sviði vísindamiðlunar í gegnum árin. 

Á nýafstaðinni Vísindavöku Rannís voru veitt sérstök heiðurverðlaun Rannís fyrir ötult starf í þágu Vísindavöku og miðlunar vísinda í gegnum árin. 

Guðrún Jónsdóttir Bachmann, kynningarstjóri vísindamiðlunar hjá Háskóla Íslands, hefur frá upphafi Vísindavöku tekið þátt í undirbúningi vökunnar, veitt skipuleggjendum ráðgjöf og hugmyndir, og miðlað af reynslu sinni og þekkingu til að gera vökuna sem áhrifamesta.
Auk þess hefur Guðrún skipulagt þátttöku Háskóla Íslands á Vísindavöku ásamt sínu samstarfsfólki. 

Þá má geta þess að Guðrún sótti sér menntun á sviði vísindamiðlunar og brautskráðist árið 2009 með meistaragráðu í vísindamiðlun frá University of West-England.

Aðalheiður Jónsdóttir, sviðsstjóri mennta- og menningarsviðs Rannís fór yfir samstarf hennar og Guðrúnar í gegnum árin í stuttri ræðu á Vísindavöku en Aðalheiður hefur stýrt undirbúningi og framkvæmd Vísindavöku Rannís frá árinu 2006 þegar hún var fyrst haldin í Listasafni Reykjavíkur. 

Aðalheiður, fyrir hönd Rannís, þakkaði Guðrún fyrir ómældan innblástur og drifkraft í þágu Vísindavöku og framlag hennar við að gera Vísindavöku Rannís að mikilvægum og áhugaverðum snertifleti almennings við vísindin á Íslandi.

Mynd: f.v. Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís - Aðalheiður Jónsdóttir, sviðsstjóri mennta- og menningarsviðs Rannís - Guðrún Jónsdóttir Bachmann, kynningarstjóri vísindamiðlunar hjá Háskóla Íslands, -  Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Ljósmyndari: Arnaldur HalldórssonÞetta vefsvæði byggir á Eplica