Á Vísindavöku geta gestir rölt um sýningarsvæðið sjálft sem er miðpunktur Vísindavöku, spjallað við vísindafólk og fræðst um rannsóknir þess.
Rannís stendur fyrir Vísindavöku á Íslandi, en hún er haldin samtímis í helstu borgum Evrópu síðustu helgina í september undir heitinu Researchers' Night. Á árinu 2022 var Vísindavakan haldin í fyrsta sinn frá 2019 og var hún einstaklega vel sótt og áætlað er að yfir 6400 hafi sótt vökuna heim.
Í aðdraganda Vísindavöku verður einnig hellt upp á hið sívinsæla Vísindakaffi - nánari dagskrá verður auglýst þegar nær dregur.
Á Vísindavökunni kynnir vísindafólk frá háskólum, stofnunum og fyrirtækjum rannsóknaverkefni sín fyrir almenningi á lifandi og skemmtilegan hátt á fjölda sýningarbása. Gestir fá að skoða og prófa ýmis tæki og tól sem notuð eru við rannsóknir, skoða afurðir verkefna og spjalla við vísindafólkið sjálft um hvernig er að starfa að vísindum, rannsóknum og nýsköpun. Fjölskyldan er í fyrirrúmi á Vísindavöku og gefst þar kjörið tækifæri til að kynna heim vísindanna fyrir börnum og unglingum.
Allar vísindagreinar eru kynntar á Vísindavöku.
Við hlökkum til að sjá þig á Vísindavökunni 30. september í Laugardalshöllinni.