Eldgos, spænska veikin og gervigreind á Vísindakaffi

11.9.2018

Í aðdraganda Vísindavöku verður hellt upp á Vísindakaffi, þar sem fræðimenn kynna viðfangsefni sín á óformlegan hátt í kósý kaffihúsastemmningu. 

Í ár verður boðið upp á þrjú Vísindakaffi á kaffihúsinu Kaffi Læk í Reykjavík og má finna dagskrá hér að neðan.

Mánudagur 24. september kl. 20:30-22:00

Engill dauðans - af spænsku veikinni 1918 og áskorunum samtímans.  Magnús Gottfreðsson, Bryndís Sigurðardóttir og Ólafur Guðlaugsson, smitsjúkdómalæknar.

Fjallað verður um spænsku veikina sem herjaði á Ísland 1918, en á heimsvísu er talið að allt að 100 milljónir manna hafi látist af völdum veikinnar. Hvaða lærdóm er hægt að draga af þessum mannskæðasta faraldri sögunnar? 

Þriðjudagur 25. september kl. 20:30-22:00

Fyrirboðar eldgosa.  Freysteinn Sigmundsson, Norræna eldfjallasetrinu, Jarðvísindastofnun HÍ. 

Hvað gerist í rótum eldstöðva fyrir eldgos og hverjir eru fyrirboðar eldsumbrota.  Hvaða íslensk eldfjöll eru að undirbúa sig undir eldgos. Vitum við hvað er mikið af kviku í rótum íslenskra eldstöðva? Hversu mikið af bergkviku streymir inn í rætur íslenskra eldfjalla í dag og hvernig getum við mælt það?

Miðvikudagur 26. september kl. 20:30-22:00

Gervigreind, vísindi og framtíð mannkyns: hvað er framundan? Kristinn R. Þórisson, prófessor við tölvunarfræðideild HR og Þröstur Thorarensen rannsakandi hjá Vitvélastofnun Íslands.

Fjórða iðnbyltingin er sögð breyta mörgu í framtíðinni, svo sem störfum, hagkerfum - jafnvel stríðsrekstri. Er eitthvað til í þeim fjölmörgu spám sem hafa komið fram undanfarið um sjálfvirka samfélagið? Allar gera þær ráð fyrir að þróun gervigreindar muni sífellt nálgast greind mannsins - og jafnvel fara framúr henni á næstu árum eða áratugum. Er sú hugmynd kannski gölluð?

Vísindakaffi er haldið í aðdraganda Vísindavöku. Þar munu vísindamenn á ýmsum fræðasviðum kynna rannsóknir sínar sem allar eiga það sameiginlegt að vera áhugaverðar fyrir fólk á öllum aldri. Gestir fá tækifæri til að spyrja og taka þátt í umræðum og komast þannig að því hvernig störf vísindamanna hafa áhrif á daglegt líf okkar allra.

Markmiðið með Vísindakaffikvöldunum er að færa vísindin nær almenningi og kynna það rannsóknastarf sem stundað er í landinu á aðgengilegan hátt.Þetta vefsvæði byggir á Eplica