Til hamingju með daginn, vísindamenn!

28.9.2018

Vísindavaka Rannís verður haldin í dag, föstudaginn 28. september kl. 16:30-22:00 í Laugardalshöllinni. Á Vísindavöku finna allir eitthvað við sitt hæfi og er fólk á öllum aldri boðið velkomið, en markmiðið er að almenningur fái tækifæri til að spjalla við vísindafólk um viðfengsefni þess. Aðgangur er ókeypis og margt spennandi að sjá og reyna á Vísindavöku!

Vísindavakan hefst kl. 16:30 með því að Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra flytur ávarp og afhendir viðurkenningu Rannís fyrir vísindamiðlun. Þá tekur við æsispennandi opnunaratriði sem stjörnufræðingarnir Kári og Sævar sjá um.  Að setningu lokinni opnar sýningarsvæðið með lifandi vísindamiðlun, þar sem gestir geta fundið eitthvað skemmtilegt og skrýtið fyrir alla aldurshópa auk þess sem stuttir fyrirlestrar verða fluttir á sal.

Svarthol, sebrafiskar, hitamyndavél og handritasmiðja!

Margt forvitnilegt verður í boði á Vísindavöku, en um 70 sýnendur verða á svæðinu til að kynna rannsóknir og viðfangsefni sín, þar á meðal háskólarnir í landinu, rannsóknastofnanir auk fjölmargra fyrirtækja. Svarthol og þyngdarbylgjur, vísindasmiðja, jarðskjálftamælir, þvívíddarmatarprentari, hitamyndavél, síldarlýsi, flaska sem hægt er að borða, lífvirkni þaraþykknis, tónsköpun með gervigreind, handritasmiðja, líftæknilyf, sprengjur og syngjandi vetrarhvalir er aðeins dæmi um þau verkefni sem verða kynnt á Vísindavöku. 

Vísindin lifna við á Vísindavöku!

Á Vísindavökunni kynnir fræðafólk frá háskólum, stofnunum og fyrirtækjum viðfangsefni sín fyrir almenningi á lifandi og skemmtilegan hátt. Gestir fá að skoða og prófa ýmis tæki og tól sem notuð eru við rannsóknir, kynnast ýmsum afurðum og spjalla við vísindafólkið sjálft um hvernig er að starfa að vísindum, rannsóknum og nýsköpun. Lögð er áhersla á lifandi vísindamiðlun og virka þátttöku gesta og eru börn og ungmenni sérstaklega boðin velkomin á Vísindavöku.







Þetta vefsvæði byggir á Eplica