Viðurkenning Rannís fyrir framúrskarandi vísindamiðlun er afhent á Vísindavöku. Hægt er að koma tilnefningum vegna vísindamiðlunar fyrir Vísindavöku 2022 á visindavaka@rannis.is
Veðurstofa Íslands hlaut viðurkenninguna fyrir miðlun upplýsinga um hvers kyns náttúruvá og Sævar Helgi Bragason fyrir að miðla vísindum til almennings á fjölbreyttan hátt, með sérstakri áherslu á að ná til barna og ungmenna.
Alltaf á vaktinni. Veðurstofa Íslands hefur vaktað náttúruöfl landsins í 100 ár. Auk þess að sinna mikilvægum almannavörnum hefur hún unnið leynt og ljóst að því að auka náttúrulæsi þjóðarinnar. Miðlun vísindaþekkingar spilar þar stórt hlutverk, hvort sem um er að ræða jarðskjálfta og eldgos, ofsaveður eða aðra náttúruvá og hefur starfsfólk Veðurstofunnar verið óþreytandi við að miðla upplýsingum byggðum á rannsóknum, á ábyrgan hátt til almennings. Þar er skemmst að minnast öflugrar upplýsingamiðlunar um jarðskjálftana og eldgosið á Reykjanesi
Eldhugi í miðlun vísinda. Sævar Helgi Bragason hefur sýnt einstakan áhuga og eldmóð við að miðla vísindum á aðgengilegan hátt til almennings og hefur starfað með Vísindavöku Rannís bæði sem sýnandi og vísindamiðlari. Hann leggur mikla áherslu á að kynna vísindi og fræði fyrir börnum og ungmennum og þótt geimvísindi og umhverfismál séu honum sérstaklega hugleikin, þá er hann líka mikill áhugamaður um að blanda saman vísindum og listum. Í gegnum starf sitt hjá RÚV heldur hann úti reglulegri umfjöllun um tækni og vísindi fyrir börn í útvarpi KrakkaRÚV og Krakkafréttum og átti hann stærstan þátt í því að endurvekja sjónvarpsþáttinn Nýjasta tækni og vísindi. Hann er einnig með reglulega pistla um vísindi í morgunútvarpi Rásar 2. Sævar hefur haldið úti ýmsum vefsíðum með fræðslu um vísindi, s.s. Stjörnufræðivefnum og Geimurinn.is, auk þess sem hann hefur setið fyrir svörum á Vísindavefnum. Flestir þekkja aðkomu Sævars Helga að sjónvarpsþáttum RÚV um loftslagsvandann, Hvað höfum við gert? og um lausnir við loftslagsvandanum, Hvað getum við gert? sem voru framleiddir af Sagafilm. Loks má nefna að Sævar hefur unnið með Listasafni Íslands að sýningunni Halló geimur! og með Sinfóníuhljómsveit Íslands að vísinda- og umhverfistónleikunum Undur jarðar þar sem töfrar jarðar og alheimsins fá nýja vídd í stórbrotnum og litríkum tónverkum.
Á myndinni hér að ofan má sjá Hallgrím Jónasson forstöðumann Rannís, Lilju D. Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra, Árni Snorrason forstjóra Veðurstofu Íslands og Sævar Helgi Bragason.
Vísindasmiðjan hlaut viðurkenningu fyrir vísindamiðlun, sem afhent var við opnun Vísindavöku Rannís laugardaginn 28. september 2019 í Laugardalshöllinni. Jón Atli Benediktsson, rektor og Guðrún Bachmann kynningarstjóri vísindamiðlunar hjá Háskóla Íslands, veittu viðurkenningunni viðtöku.
Í Vísindasmiðjunni er vísindum miðlað til grunnskólanema og kennara þeirra með gagnvirkum og lifandi hætti. Þar eiga nemendur kost á að kynnast náttúruvísindum með uppgötvunum og virkri þátttöku, sem glæðir áhuga þeirra og skilning. Auk þess tekur Vísindasmiðjan á móti gestum á öllum aldri í margvíslegum viðburðum um allt land.
Á myndinni má sjá Jón Atla Benediktsson og Guðrúnu Bachmann, ásamt Ara Ólafssyni sem kom Vísindasmiðjunni upphaflega á fót, ásamt nokkrum hressum starfsmönnum Vísindasmiðjunnar. Lengst til hægri er Hallgrímur Jónasson forstöðumaður Rannís, sem afhenti Vísindasmiðjunni viðurkenninguna.
Markmið Vísindasmiðjunnar er að:
Frá því Vísindasmiðjan opnaði, í mars 2012, hafa komið þangað um 25 þúsund skólabörn og er smiðjan opin skólahópum af öllu landinu, skólum og börnum að kostnaðarlausu. Núna tekur Vísindasmiðjan árlega á móti um 6.000 grunnskólanemum og um 250 kennurum. Auk skólahópa tekur Vísindasmiðjan á móti gestum á öllum aldri á opnum viðburðum á menningar- og menntastofnunum og almannarýmum, svo sem Hörpu, Fjölskyldu- og húsdýragarði og á bókasöfnum. Gestir á slíkum viðburðum eru nú um fjögur þúsund á ári og fer ört fjölgandi.
Þá eru ótaldir gestirnir í ferðum Háskólalestarinnar, en Vísindasmiðjan ferðast árlega með henni um land allt. Í ferðum lestarinnar býðst landsmönnum í dreifðum byggðum að kynnast vísindum með aðgengilegum hætti og jafnast þannig tækifæri og aðgangur landsmanna að þekkingu og fræðum. Starfsmenn Vísindasmiðjunnar eru kennarar og nemendur HÍ og fá háskólanemar sem þar starfa einstaka þjálfun í vísindamiðlun meðfram sínu námi.
Nýlega braut Vísindasmiðjan blað í sögu barnamenningar á Íslandi þegar hún fékk veglegan styrk úr nýstofnuðum Barnamenningarsjóði Íslands vegna dagskrár í Hörpu veturinn 2019-2020. Þar mætast listir og vísindi á skapandi og lifandi máta og má segja að með þessum áfanga hafi vísindin verið viðurkennd sem hluti af menningu barna og nú geta börn á öllum aldri kynnst þeim af eigin raun í stærsta menningarhúsi landsins.
Sjónvarpsþáttaröðin Fjársjóður framtíðar hlaut viðurkenningu Rannís 2018 fyrir vísindamiðlun, en þættirnir eru framleiddir af Háskóla Íslands fyrir RÚV. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra afhenti viðurkenninguna við opnun Vísindavöku 2018 í Laugardalshöll föstudaginn 28. september.
Fjársjóður framtíðar er langviðamesta verkefnið sem Háskóli Íslands hefur tekist á hendur til að miðla vísindum til almennings en skólinn leggur mikla áherslu á að miðla rannsóknum og mikilvægi vísinda og nýsköpunar til samfélagsins. Þáttaröðin hefur verið fastur liður í dagskrá RÚV frá árinu 2011 og hefur verið sýnd á Norðurlöndunum auk þess að keppa um gullverðlaun á einni elstu og virtustu vísindakvikmyndahátíð í Evrópu.
Á myndinni má sjá forsvarsmenn þáttanna innan HÍ ásamt Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og Hallgrími Jónassyni forstöðumanni Rannís.
Markmið með þáttaröðinni um Fjársjóð framtíðar er að auka áhuga og þekkingu almennings á öllum aldri á vísindum og nýsköpun og að landsmenn skynji og skilji mikilvægi þessara þátta fyrir velferð samfélagsins.
Í takt við áherslu Vísindavöku Rannís, þá er vísindafólkið sjálft í forgrunni í þáttunum, þar sem það miðlar rannsóknum sínum til almennings.
Óhætt er að segja að þættirnir hafi frá upphafi vakið gríðarlega athygli og að sú athygli hafi náði langt út fyrir landsteina. Þættirnir hafa verið kynntir sem einstakt verkefni í vísindamiðlun á Evrópuráðstefnu bandalags háskóla og æðri menntastofnanna, á árvissri ráðstefnu EUPRIO, sem er félag samskiptafólks í evrópskum háskólum, á ráðstefnu UNICA, sem er samstarfsnet háskóla í evrópskum höfuðborgum, svo fátt eitt sé talið.
Viðurkenning Rannís fyrir vísindamiðlun var afhent á Vísindavöku 2013, sem haldin var í Háskólabíói. Að þessu sinni hlaut Sprengjugengið viðurkenninguna og afhenti Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra þeim viðurkenninguna.
Sprengjugengið samanstendur af hópi nemenda í efnafræði, efnaverkfræði og lífefnafræði við Háskóla Íslands sem hafa stundað kynningar og sýningar á undraheimi efnafræðinnar fyrir almenning síðan 2007.
Kynningar og sýningar hópsins eru í senn fræðandi og skemmtilegar og til þess fallnar að örva áhuga ungmenna og almennings á efnafræði og skyldum raungreinum. Starfsemi hópsins hefur færst jafnt og þétt í aukana síðan 2007 og hefur frá upphafi verið í miklu og góðu samstarfi við skipuleggjendur Vísindavöku.
Sprengjugengið er ekki bara skemmtilegt, heldur leggur það einnig mikla áherslu á að flétta inn skýringar á hinum ýmsu eðlisfræðilegum og efnafræðilegum eiginleikum sýningaratriða sem og að tengja fræðin við hversdagsleg fyrirbæri. Hópurinn hefur haldið sýningar víða um land í skólum, félagsmiðstöðum, komið fram í fjölmiðlum og ýmsum samkomum. Þá hefur hann lagt sig fram við að vinna með börnum á grunnskólastigi í Háskóla unga fólksins og víðar.
Það er álit dómnefndar Rannís að Sprengjugengið, undir forystu Katrínar Lilju Sigurðardóttur, framhaldsnema í efnafræði, sé einstaklega vel að viðurkenningu fyrir vísindamiðlun komið.
Viðurkenning Rannís fyrir vísindamiðlun var afhent á Vísindavöku 2012. Að þessu sinni hlaut Háskólalestin viðurkenninguna, en lestin ferðaðist um landið á afmælisári HÍ og stóð fyrir margs konar vísindamiðlun. Myndin sýnir aðstandendur Háskólalestarinnar ásamt Katrínu Jakobsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem afhenti viðurkenninguna fyrir hönd Rannís.
Háskólalestin ferðaðist um landið í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands 2011. Lestin heimsótti alls níu áfangastaði og stoppaði tvo daga á hverjum stað. Lögð var áhersla á lifandi vísindamiðlun til fólks á öllum aldri með fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Viðtökur voru með eindæmum góðar og má segja að með Háskólalestinni hafi vísindin og fræðin verið færð til fólksins í landinu.
Háskólalestin byggðist upp á fjölþættum vísindaviðburðum þar sem margir lögðust á eitt við að uppfræða og skemmta samtímis. Í lestinni voru vísindamenn háskólans, kennarar og framhaldsnemendur og var lestin byggð á sjálfstæðum einingum sem mynduðu eina heild.
Helstu einingarnar sem ferðuðust með lestinni voru Háskóli unga fólksins, þar sem grunnskólanemar fá að kynnast um stund háskólanámi, vísindum og rannsóknum; Vísindavefurinn, sem svarar spurningum um allt milli himins og jarðar og er einn fjölsóttasti vefur landsins; Sprengjugengið, sem er hópur efnafræðinema úr Háskóla Íslands sem vakið hefur mikla athygli fyrir kröftugar og litríkar tilraunir á sviði efnafræðinnar og loks Stjörnutjaldið, þar sem mátti fræðast um fyrirbæri alheimsins.
Háskólalestin var farin í samstarfi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á landsbyggðinni en samstarfsaðilar voru einnig grunnskólar á landsbyggðinni, sveitarfélög og fleiri.
Í lestinni var boðið upp á vísindaleiki, létta en markvissa kennslu, fjör og gríðarlega fjölbreytt fræði sem oft voru sniðin að sérkennum þess staðar sem var heimsóttur. Áhersla var lögð á að auka skilning þátttakenda á vísindum, en í þeim hópi var almenningur; börn, unglingar og fullorðnir. Einnig var leitast við að sýna fram á mikilvægi rannsókna, vísinda almennt og nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag. Alls staðar tóku vísindamenn beinan þátt í viðburðum lestarinnar.
Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn hlutu viðurkenningu Rannís 2011 fyrir vísindamiðlun, en þeir sem standa að Stjörnuskoðunarfélaginu og Stjörnufræðivefnum hafa verið mjög ötulir við að fræða almenning, og sérstaklega börn og ungmenni um undur alheimsins. Sverrir Guðmundsson ritari félagsins veitti viðurkenningunni viðtöku, úr hendi forstöðumanns Rannís, Hallgríms Jónassonar, við opnun Vísindavöku 2011 í Háskólabíói föstudaginn 23. september.
Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness var stofnað þann 11. mars árið 1976 í kringum stærsta stjörnusjónauka landsins sem þá var, og er enn, á þaki Valhúsaskóla. Stofnfélagar voru tuttugu talsins en í dag eru félagsmenn rúmlega 300 talsins. Fyrsti formaður félagsins var Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur en núverandi stjórn skipa Sævar Helgi Bragason (formaður), Sverrir Guðmundsson (ritari) og Óskar Torfi Viggósson (gjaldkeri). Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness er elsta og fjölmennasta félag áhugafólks um stjörnufræði og stjörnuskoðun hér á landi. Félagið er öllum opið og eru félagsfundir haldnir mánaðarlega yfir vetrartímann.
Á hverju ári stendur félagið fyrir margvíslegum viðburðum. Þeir félagar hafa brallað ýmislegt í gegnum tíðina til kynningar á stjörnufræði og má þar helst nefna:
Námskeið: Meira en 200 manns hafa sótt almenn námskeið félagsins í stjörnufræði og stjörnuskoðun, bæði á Höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Álíka fjöldi barna á aldrinum 5 til 12 ára hafa sótt sérstök barnanámskeið í stjörnufræði. Einnig ber að nefna endurmenntunarnámskeið fyrir kennara. Öll námskeiðin eru haldin í samstarfi við Stjörnufræðivefinn.
Sjónauki í alla skóla landsins: Árið 2010 tók félagið þátt í að gefa öllum skólum á Íslandi lítinn stjörnusjónauka. Námsefni um sjónaukann hefur verið útbúið og er aðgengilegt á Stjörnufræðivefnum. Aðstandendur verkefnisins, Sævar, Sverrir, Ottó og Tryggvi, heimsóttu samanlagt yfir 170 skóla um allt land þegar sjónaukarnir voru afhentir. Með hverjum sjónauka fylgdi heimildarmynd á DVD disk um 400 ára sigurgöngu stjörnusjónaukans.
Stjörnuskoðunarkvöld: Undanfarin ár hefur félagið staðið fyrir stjörnuskoðun fyrir almenning. Þá gefst gestum og gangandi kostur á að kíkja í gegnum sjónauka félagsmanna og læra um stjörnuhimininn.
Sólskoðun á 17. júní og Menningarnótt: Þegar veður leyfir þessa hátíðisdaga fara félagsmenn út með sólarsjónauka og sýna fólki á öllum aldri sólina á öruggan hátt. Mörg hundruð manns sjá og fræðast um sólina af tilefni.
Ókeypis stjörnufræðihugbúnaður: Áhugasamir geta fengið stjörnuhiminninn í tölvuna sína með því að sækja Stellarium hugbúnaðinn sem hefur verið þýddur yfir á íslensku.
Ljósmyndasýning: Á ári stjörnufræðinnar 2009 tók félagið þátt í ljósmyndasýningu á Skólavörðuholti í tilefni Menningarnætur 2009. Þar voru til sýnis yfir 20 stórar og fallegar ljósmyndir af undrum alheimsins. Þær voru svo fallegar að nokkrum var stolið! Sýningin stóð yfir í um mánuð og sáu hana mörg þúsund manns.
Tunglmyrkvaskoðun: Hrollkaldan desembermorgun árið 2010 stóðu Stjörnuskoðunarfélagið og Stjörnufræðivefurinn fyrir tunglmyrkvaskoðun fyrir framan húsakynni RÚV í Efstaleiti. Yfir 300 manns lögðu leið sína til okkar og fengu að skoða Satúrnus, Venus og auðvitað rautt, almyrkvað tungl. Atburðinum var útvarpað í Morgunútvarpi Rásar 2.
Útgáfa á fréttabréfum og veglegu tímariti: Ár hvert gefur félagið út fréttabréf sem send eru félagsmönnum. Annað hvert ár gefur félagið út mjög veglegt tímarit um stjörnufræði. Næsta er væntanlegt í október og er verið að safna auglýsingum og styrktaraðilum!
Vísindavaka: Stjörnuskoðunarfélagið tekur að sjálfsögðu alltaf þátt í Vísindavöku Rannís!!
Að eigin sögn eru forystumenn félagsins alltaf að trana sér fram í fjölmiðlum og nota hvert tækifæri sem gefst til að segja fólki frá því sem er að gerast í heimi stjörnufræðinnar og ekki síst ef eitthvað áhugavert er að sjá á himninum.
Stærsta verkefni félagsins um þessaar mundir er svo að færa aðstöðuna út fyrir bæinn. Allt fé sem safnast við sölu á varningi (blaði, sjónaukum o.þ.h.) og námskeiðum er ætlað til þess að byggja upp nýja aðstöðu, fjarri allri ljósmengun.
Nokkur orð um Stjörnufræðivefinn:
Stjörnufræðivefurinn, www.stjornufraedi.is, er alfræðivefur um stjörnufræði og stjörnuskoðun. Vefnum er ætlað að efla áhuga almennings á stjarnvísindum og auðvelda aðgengi að vönduðu efni um stjörnufræði á íslensku. Vefurinn var settur á laggirnar snemma árs 2004 og hefur síðan vaxið fiskur um hrygg. Á vefnum er að finna meira en 500 greinar um stjarnfræðileg viðfangsefni, allt frá sjónaukum og reikistjörnum til svarthola og vangaveltna um líf í alheimi.
Í viku hverri birtast á vefnum fréttir af nýjustu niðurstöðum rannsókna í stjarnvísindum. Mynd vikunnar er á sínum stað og í hverjum mánuði er gefið út Stjörnukort mánaðarins. Stjörnufræðivefurinn er margmiðlunarvefur og eru þess vegna reglulega birt vefvörp frá Hubble geimsjónaukanum og Stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli. Undanfarin ár hefur vefurinn staðið að Vísindaþættinum í Útvarpi Sögu en þættirnir eru aðgengilegir á vefnum.