Gervigreind, vísindi og framtíð mannkyns: hvað er framundan?

Miðvikudag 26. september 2018 kl. 20:30-22:00

Gervigreind, vísindi og framtíð mannkyns verður umfjöllunarefni vísindakaffis Rannís miðvikudaginn 26. september og verður velt upp spurningum sem varða framtíð okkar í heimi þar sem tækni, vélmenni og gervigreind skipta æ meira máli í daglegu lífi. Vísindamenn kvöldsins, sem munu segja frá og sitja undir svörum, verða þeir Kristinn R. Þórisson, prófessor við tölvunarfræðideild HR og Þröstur Thorarensen rannsakandi hjá Vitvélastofnun Íslands.

Fjórða iðnbyltingin er sögð breyta mörgu í framtíðinni, svo sem störfum, hagkerfum - jafnvel stríðsrekstri. Er eitthvað til í þeim fjölmörgu spám sem hafa komið fram undanfarið um sjálfvirka samfélagið? Allar gera þær ráð fyrir að þróun gervigreindar muni sífellt nálgast greind mannsins - og jafnvel fara framúr henni á næstu árum eða áratugum. Er sú hugmynd kannski gölluð?

Vísindakaffið verður haldið á Kaffi Læk, á horni Laugarnesvegar og Laugalækjar í Reykjavík.

Markmiðið með Vísindakaffikvöldunum er að færa vísindin nær almenningi og kynna það rannsóknastarf sem stundað er í landinu á aðgengilegan hátt.

Vísindakaffi er haldið í aðdraganda Vísindavöku. Þar munu vísindamenn á ýmsum fræðasviðum kynna rannsóknir sínar sem allar eiga það sameiginlegt að vera áhugaverðar fyrir fólk á öllum aldri. Gestir fá tækifæri til að spyrja og taka þátt í umræðum og komast þannig að því hvernig störf vísindamanna hafa áhrif á daglegt líf okkar allra.








Þetta vefsvæði byggir á Eplica